Kristján L. Möller ráðherra samgöngu-, fjarskipta- og sveitarstjórnarmála ætlar á Alþingi í vetur að leggja fram frumvarp þar sem kveðið er á um að lágmarks íbúafjöldi sveitarfélaga verði 1000, í stað 50 eins og nú er. Þetta hefur komið fram á ruv.is. Á Vestfjörðum eru 9 sveitarfélög og er Ísafjarðarbær það eina þar sem íbúatalan er yfir þúsund. Öll sveitarfélögin fjögur á Ströndum þyrftu að sameinast öðrum, ef af þessu verður, en í Strandabyggð eru rúmlega 500 íbúar, rúmlega100 í Kaldrananeshreppi og Bæjarhreppi og um það bil 50 í Árneshreppi. Þrjú síðastnefndu sveitarfélögin eru í hópi þeirra fámennustu á landinu.
Síðustu ár hefur verið kosið um sameiningar víða og sveitarfélögum fækkað mjög. Stærstu sveitarfélögunum og ríkisvaldinu hefur þó ekki þótt ganga nógu hratt, en vilji er til að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Ekki dugir að sameina öll sveitarfélögin á Ströndum í eitt til að ná markinu og óvíst í hvaða átt Strandamenn horfa helst ef af þessu verður – hvort þeim hugnast sameining á Húnaflóasvæðinu, yfir í Reykhólahrepp og Dali eða á Vestfjarðavísu.
Aðalsteinn Óskarsson framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga segir að á Vestfjörðum séu innviðir sveitarfélaganna ekki nógu traustir og háðir miklum fjarlægðum og að ríkisvaldið hafi ekki staðið sig í að tryggja að grunnkerfið og grunnþjónusta eins og samgöngur og fjarskipti séu í lagi. Ekki sé hægt að sameina sveitarfélög fyrr en stjórnvöld hafi brugðist við þessum vanda.