25/11/2024

Vel heppnuð Bryggjuhátíð

Bryggjuhátíð Drangsnesinga heppnaðist vel en hún var haldin í þrettánda sinn um helgina. „Með mikilli samstöðu og góðri þátttöku er enginn vafi á því að Bryggjuhátíðin tókst vel að þessu sinni eins og fyrri árin og er gott tákn um þann samtakamátt sem með fólkinu ríkir,“ segir Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra á bloggsíðu en hann lét sig ekki vanta í fögnuðinn. Þar segir jafnframt: „Bryggjuhátíðin á Drangsnesi er ein þessara skemmtilegu hátíða sem efnt er til víða um land á sumrin. Drangsnesingar hafa haldið úti sinni hátíð árum saman. Hófust fyrst handa árið 1996 og ég hef haft þá ánægju að sækja þá nokkrum sinnum heim á Bryggjuhátíðina. Nú síðast á laugardaginn var."

Áfram heldur Einar K. Guðfinnsson: "Það einkennir hátíðina á Drangsnesi hversu heimamenn eru duglegir að vinna að undirbúningi í sjálfboðastarfi. Einn hápunkturinn er svo glæsilegt fiskihlaðborð, þar sem getur að líta alls konar krásir úr djúpum hafsins, sem heimamenn hafa aflað og matreitt. …

En þýðingarmikill þáttur hátíða eins og þessara er hið gamalkunna, að maður er manns gaman. Það er gaman að hitta fólk víða að, ekki þó síst heimamenn og brottflutta Strandamenn sem drífur þarna að.“

Þess frétt er afrituð af vefnum www.bb.is og vefsíðu Einars K. Guðfinnssonar www.ekg.is.