Hamingjudagar hafa gengið ágætlega fyrir sig og fjölmenni var á dagskránni og dansleik í gær sem fór vel fram. Á lokadegi Hamingjudaganna í dag heldur Sauðfjársetur á Ströndum sína fimmtu Furðuleika og hefjast þeir kl. 13:00. Á leikunum keppa gestir í ýmsum skringilegum íþróttagreinum sem eiga það sameiginlegt að hafa ekki hafa hlotið viðurkenningu Alþjóða Ólympíunefndarinnar. Meðal keppnisgreina í ár eru Öskur, Belgjahopp og Hrafnaspark. Einnig verður opnuð sýningin Þrírifað í þrístíft og þrettán rifur ofan í hvatt sem er unnin af grunnskólabörnum í Reykhólahreppi. Þá er gönguferð, golfmót, léttmessa, portrettgerð og sýningar á dagskránni.
Dagskrárliðir í dag eru:
Kl 09:30 – 10:30 Gönguferð: Álfa- og tröllaleit um borgirnar. Leiðsögumaður: Matthías Lýðsson. Lagt verður upp frá Upplýsingamiðstöðinni á Hólmavík
Kl 10:00 – 17:00 Portrettmyndagerð Tómas Ponzi teiknar fólk í gamla Kaupfélagshúsinu við Höfðagötu.
Kl 11:00 – 12:00 Léttmessa í Hólmavíkurkirkju.
Kl 12:00 – 16:00 Ljósmyndasýning í Gamla kaupfélagshúsinu.
Kl. 12:00 – 18:00 Vinnustofa Hafþórs í Ráðaleysi opin. Ljósmyndir og vatnslitaverk til sýnis. Handverk til sölu.
Kl 13:00 – 17:00 Hamingjumót Hólmadrangs í golfi á Skeljavíkurvelli.
Kl 13:00 – 17:00 Furðuleikar Sauðfjárseturs á Ströndum í Sævangi. Keppt er í ýmsum furðugreinum s.s. öskri og skítkasti. Blöðrufólkið verður með andlitsmálningu og býr til blöðrufígúrur, einnig munu Veðurguðirnir líta í heimsókn um 14:00 og kæta börnin.
Kl 13:00 – 18:00 Kaffihlaðborð Sauðfjárseturs á Ströndum.