25/11/2024

„Regards d´Islande“

Hótel Laugarhóll í BjarnarfirðiMatthías Jóhannsson hótelstjóri á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði var í Frakklandi á dögunum og tók þar þátt í heilmikilli Strandakynningu sem haldin var að tilstuðlan bókasafnsins í háskólanum í Dunkerque. Ísland er vel þekkt í því héraði sem er í norðanverðu Frakklandi, en fjöldinn allur af frönskum sjómönnum á fyrri tíð stunduðu fiskveiðar á Íslandsmiðum og þó nokkra afkomendur þeirra er að finna vítt og breitt um landið.

Kynningin var hluti af stórri ljósmyndasýningu þar sem uppistaðan voru myndir af Ströndum teknar af Lauru Jonneskindt og Delphine Simon, en Laura er frænka Matthíasar og vann síðasta sumar á Hótel Laugarhóli. Sýningin nefndist "Regards d'Islande" sem útleggst á íslensku "Kveðja frá Íslandi". Matthías var með auglýstan fyrirlestur um Ísland og Strandir eitt kvöldið og aðsókn var miklu meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Þurfti jafnvel að vísa áhugasömum Strandaförum frá.

„Það hafði verið gert ráð fyrir u.þ.b. 80 gestum á kynninguna í litlum sal, en þegar það voru komnir upp undir 200 manns í salinn þá varð að loka honum og vísa fólki frá," segir Matthías. Hann segir að uppákoman hafi átt að standa yfir í eina klukkustund en áhuginn og fyrirspurnirnar hafi verið svo margar að tíminn teygðist í rúmar tvær klukkustundir.

„Það var mikið spurt um galdrana en ég kom einnig inn á þá uppbyggingu á Ströndum, sem vakti mikla eftirtekt," sagði Matthías og lítur bjartsýnum augum til framtíðarinnar.

„Þegar ég tók við rekstrinum á Hótel Laugarhóli, árið 2001 þá hafði hótelið fram að því ekki verið opnað fyrr en 17. júni. Á þessu ári er jafnmikið bókað um miðjan maí eins og um miðjan júní fyrir fjórum árum og allt komið á fullan skrið 1. júní. Svo hefur ferðamannatímabilið líka teygt sig talsvert fram á haustið," sagði Matthías að lokum.

Matthías er eins og Strandamönnum er kunnugt fransmaður að upplagi, en hann hefur búið á Íslandi í upp undir fjóra áratugi.