22/11/2024

Blómakörfu á hvern staur

Nú styttist óðfluga í Hamingjudaga á Hólmavík og í tilkynningu frá Brynju Bjarnfjörð framkvæmdastjóra kemur fram að ákveðið hefur verið að fegra þorpið fyrir 17. júní. Stefnan er að koma blómakörfum sem hengdar hafa verið á ljósastaura síðustu hátíðir upp mun fyrr en áður. Þeir sem eiga körfur heima eru því vinsamlegast beðnir um að afhenda þær Sigríði Drífu Þórólfsdóttir til áfyllingar, við áhaldahús hreppsins, fimmtudaginn 12. júní eða föstudaginn 13. júní. Hægt er að ná í hana í síma 895-3317 ef eitthvað er óljóst.

Starfsmenn Áhaldahúss hafa upp á síðkastið sett upp festingar fyrir körfurnar, en Vinnuskólinn mun sjá um að koma blómunum í þær og setja körfurnar upp í samvinnu við áhaldahúsið og Sigríði Drífu. Körfurnar komist því líklega upp á svipuðum tíma um allan bæ, fyrir 17. júní. Vonast er til að bærinn verði svo vel skreyttur fyrir Hamingjudagahátíðina sem verður 27. júní til 29. júní.