Ferðamálastofa hefur nú afgreitt umsóknir um styrki til úrbóta í umhverfismálum árið 2008 og að vanda eru mörg góð verkefni sem fá stuðning. Af verkefnum tengdum Ströndum má nefna að Árneshreppur fær 400 þúsund til að koma upp landgöngustiga fyrir fólksflutningabát í Norðurfirði, Freydís sf fær 500 þús til að gera bátalægi í Bolungarvík og Látravík á Hornströndum, Menningarmálanefnd Strandabyggðar fær 250 þúsund til að útbúa kort yfir menningargönguleið um Hólmavík og Ferðamálasamtök Vestfjarða fær 1,5 milljónir til að gefa út göngukort um Vestfirði, en í vor koma m.a. út kort um Hornstrandir og Strandir norðan Hólmavíkur.
Þá fær Mávaberg ehf. 200 þús. til merkingar gönguleiða um Bolungarvíkurheiði og Snjáfjallasetur fær 500 þús til að byggja upp hreinlætisaðstöðu á Snæfjallaströnd.
Í Reykhólasveit koma einnig styrkir, en Stakkgarður ehf fær 500 þús til að gera lendingabætur í Staðarhöfn og Skáleyjum, Reykhólahreppur fær 150 þús í göngustíg um fuglaskoðunarsvæði, líklega við Reykhóla, Ferðamálafélag Dala og Reykhóla fær 500 þús í göngukortin um Vestfirði og Breiðafjarðarfléttan fær 500 þús. til merkingar strandsvæða við Breiðafjörð.
Enn fleiri vestfirsk verkefni fá styrki. Ísafjarðarbær fær 2,5 milljónir til viðhalds og endurbóta á aðstöðu við Dynjanda og Vesturbyggð fær 3,6 milljónir til að koma upp hreinlætisaðstöðu við Melanes á Rauðasandi. Þá fær Félag um Víkingaverkefni á Þingeyri styrk upp á 2,5 milljónir til að koma upp hreinlætisaðstöðu á víkingasvæðinu.
Loks fær Þórir Örn Guðmundsson 200 þús til að opna fornar götur í Geirþjófsfirði, Íbúasamtökin Átak 250 þús í göngustíga í nágrenni Þingeyrar, Ævintýradalurinn ehf fær 200 þús í náttúrufræðiskilti í Heydal í Mjóafirði við Djúp og Sjóferðir H&K ehf fá 500 þús í lendingabætur á Hesteyri í Jökulfjörðum.
Lista um allar úthlutanir má nálgast undir þessum tengli.