Það er alltaf nóg um að vera hjá Skíðafélaginu, enda er snjórinn með meira móti. Árlegt Kaupþingsmót verður haldið í Selárdal í dag, föstudaginn langa 21. mars, og hefst keppni kl. 16:00. Startað verður út með hópstarti og verður 8 ára og yngri startað út fyrst og þau klára sína göngu. Að því loknu verður keppendum 9 ára og eldri startað. Veðurútlit er gott og vonast Skíðafélagið til að keppendur og áhorfendur fjölmenni í Selárdalinn.
Nýlega var haldið smurningsnámskeið hjá félaginu, þar sem menn lærðu að smyrja skíði sín og framundan er vídeókvöld þar sem horft verður á upptöku af Vasagöngunni í Svíþjóð, en upptaka af göngunni úr sænska ríkissjónvarpinu er væntanleg á Strandir. Rósmundur og Birkir sem tóku þátt í göngunni ætla þá að segja sögur frá ferðinni og sjá um skemmtiatriði meðan á sýningunni stendur. Ekki er útilokað að Birkir muni herma eftir nokkrum vel völdum keppendum. Tíminn hefur ekki verið ákveðinn en vídeókvöldð verður nánar auglýst síðar.