22/11/2024

Byggðamerki fyrir Bæjarhrepp

Merki BæjarhreppsÁ fundi hreppsnefndar Bæjarhrepps þann 12. júní 2006 var samþykkt að efna til samkeppni um byggðamerki fyrir sveitafélagið. Þriggja manna dómnefnd valdi svo eina af þeim sjö tillögum sem bárust um byggðamerki. Í nóvember síðastliðnum mun Einkaleyfisstofa svo hafa samþykkt nýtt byggðamerki fyrir Bæjarhrepp eftir að öllum skilyrðum um byggðamerki hafði verið fullnægt. Höfundur merkisins sem valið var er Alda Sverrisdóttir Brekkukoti á Borðeyri og hefur merkið sem hún hannaði sterka skírskotun til Hrútafjarðar.

Hugmyndin að baki merkinu er að sögn höfundar þessi: 

Blái liturinn er tákn himins og hafs, græni liturinn tákn beitilandsins og hrútshausarnir tveir vísa í frásögn af Ingimundi gamla landnámsmanni þar er greinir frá í Vatnsdælu: “Hann fór norður um sumarið í landleit og fór upp Norðurárdal og kom ofan í eyðifjörð einn. Og um daginn er þeir fóru með þeim firði, þá hljópu úr fjalli að þeim tveir sauðir. Það voru hrútar. Þá mælti Ingimundur: Það mun vel fallið að þessi fjörður heiti Hrútafjörður."

Það er sæmd hvers byggðalags að eiga byggðamerki og ekki annað að sjá en merkið hennar Öldu komi til með að verða Bæjarhreppi til sóma.