22/11/2024

Farið að huga að ráðningu forstöðumanns Þjóðtrúarstofu

Frá HólmavíkFljótlega eftir áramótin verður auglýst eftir forstöðumanni Þjóðtrúarstofu á Ströndum sem Strandagaldur hefur verið að vinna við að koma á laggirnar undanfari misseri. Þjóðtrúarstofa verður fræðasetur á Hólmavík með það að markmiði að vinna að hverskyns rannsóknum og útgáfu tengt þjóðfræði og sagnfræði. Á fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir 10 millljón króna framlagi til stofunnar. Að sögn Sigurðar Atlasonar framkvæmdastjóra Strandagaldurs mun starfsemi fræðaseturins skipta miklu máli í framgangi verkefna Strandagaldurs auk þess sem önnur sérstök sérfræðiverkefni koma inn á svæðið. Þegar hefur verið rætt um að færa til Þjóðtrúarstofu sérstök skráningarverkefni á vegum Menntamálaráðuneytis sem það lagði til við gerð Vestfjarðaskýrslunnar fyrr á árinu.

"Það virðist vera einhver misskilningur á Vestfjörðum að þau verkefni séu munaðarlaus," segir Sigurður, "en svo er hreint ekki, við höfum sótt fast efir þeim verkefnum og Vestfjarðanefndin hefur fram til þessa stutt okkur í því í viðræðum við ráðuneytið."

Auglýst verður eftir forstöðumanni í byrjun næsta árs eins og fyrr segir. "Við gerum ráð fyrir að á næsta ári verði ráðið í tvær stöður innan Þjóðtrúarstofu og svo bætist við tvær til viðbótar árið 2009," segir Sigurður. Hann segir einnig að stefnt sé að því að skráningarverkefnin frá Menntamálaráðuneyti geti hafist innan Þjóðtrúarstofu árið 2009. "Þá verður starfsemin komin á fullt skrið," segir Sigurður, "og fjöldi annarra verkefna sem styðja munu hvort annað".