Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum um helstu verkefni liðinnar viku kemur fram að í síðustu viku voru 23 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur á Vestfjörðum. Sá sem hraðast ók var mældur á 122 km. hraða á Holtavörðuheiði þar sem hámarkshraði er 90 km. Af þessum ökumönnum voru 10 á ferð um þjóðveginn um Strandir og Ísafjarðardjúp. 7 ökumenn voru stöðvaðir í nágrenni við þéttbýlisstaði á norðanverðum Vestfjörðum og 4 innanbæjar á Ísafirði.
Sex umferðaróhöpp voru tilkynnt í vikunni. Á þriðjudeginum var tilkynnt um bílveltu á Dynjandisheiði, en þar valt jeppi og skemmdist talsvert. Tveir erlendir ferðamenn voru í bifreiðinni en þeir sluppu óslasaðir. Þá var tilkynnt um bílveltu við bæinn Brekku í Reykhólasveit á föstudaginn. Þrír voru í bifreiðinni og fóru þeir allir á sjúkrahúsið á Patreksfirði til skoðunar, en engin þeirra var alvarlega slasaður. Þá valt jeppi við Hörgsnes á Barðarströnd á laugardagsmorguninn, tveir voru í bílnum og sluppu þeir án meiðsla. Þrjú minniháttar umferðaróhöpp urðu innan þéttbýlis, tvö á Ísafirði og eitt í Bolungarvík. Einn ökumaður var stöðvaður fyrir meinta ölvun við akstur og einn var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum lyfja.
Aðfaranótt fimmtudagsins var grind með aukaljósum stolið af flutningabifreið sem lagt hafði verið við aðstöðu Flytjanda við Sundahöfn á Ísafirði. Þá sömu nótt var aukaljósum stolið af mjólkurbifreið sem lagt hafði verið við Sindragötu. Lögreglan biður þá sem mögulega hafa orðið varir við grunsamlegar mannaferðir á þessum stöðum á milli kl. 00:00 og 06:00 á fimmtudagsmorgun að hafa samband í síma 450 3730.