22/11/2024

Sjö merkilegustu mannvirkin á Vestfjörðum

Frestur til að skila inn tilnefningum vegna leitarinnar að sjö merkilegustu mannvirkjunum á Vestfjörðum rennur út á þriðjudaginn kemur, þann 28. ágúst. Þegar hafa borist tilnefningar um liðlega fimmtíu mannvirki víðs vegar á Vestfjörðum. Dómnefnd fer yfir tillögurnar og velur sjö úr þeim hópi. Rökstuddar hugmyndir skal senda til Svæðisútvarps Vestfjarða á Ísafirði á veffangið ruvest@ruv.is. Af mannvirkjum á Ströndum sem vitað er að hafa þegar verið tilnefnd má nefna síldarverksmiðjuna í Djúpavík, Skarðsrétt í Bjarnarfirði og Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfirði.

Dómnefndina skipa Árni Traustason, Guðrún Sigurðardóttir, Hlynur Þór Magnússon, Jenný Jensdóttir á Drangsnesi, Jón Sigurpálsson, Magnús Ólafs Hansson og Ólöf Guðný Valdimarsdóttir. Í þessum hópi eru m.a. arkitekt, byggingatæknifræðingur, forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða og sagnfræðingur.