25/11/2024

Menningarmálanefnd

Kosið var í menningarmálanefnd Hólmavíkurhrepps í gær og voru eftirtaldir kosnir aðalmenn í nefndina: Margrét Vagnsdóttir, Kristín S. Einarsdóttir, Sólrún Jónsdóttir, Arnar S. Jónsson og Rúna Stína Ásgrímsdóttir. Eftir er að setja nefndinni ramma til að starfa eftir, að sögn Ásdísar Leifsdóttir sveitarstjóra, og ræða hvort hún sjái um einhver styrkjamál. Aðspurð um verksvið nefndarinnar nefnir Ásdís hugmyndir um að ætla henni að koma upp myndlistarsýningum á sumrin og vera með árlega hátíð á Hólmavík.

Í samtali við Arnar S. Jónsson sem er einn nefndarmanna kom fram að hann telur líklegt að nefndin geti unnið töluverða hugmyndavinnu um smá og stór menningarverkefni – bæði á vegum hreppsins og í samstarfi við aðra aðila. Líklega leggi hún svo mótaðar tillögur um þau fyrir sveitarstjórn, sem hljóti svo að taka endanlegar ákvarðanir um einstök verkefni, enda fylgi menningarverkefnum oft töluverður kostnaður.

Arnar segir mikilvægt að nefndin leiti eftir samstarfi við aðila sem hafa staðið fyrir menningarverkefnum á Ströndum og vonandi geti hún aðstoðað þá eftir megni við ýmis uppátæki. Galdrasýningin og Sauðfjársetrið hafi staðið í fararbroddi við stór menningarverkefni á svæðinu og slíkt frumkvæði beri að virða.

Sigurður Atlason framkvæmdastjóri Galdrasýningar á Ströndum fagnar stofnun nefndarinnar og segir hana mjög jákvætt skref. Hann vonast eftir góðu samstarfi við nefndina og segir að tilkomu hennar sýni eindreginn vilja hreppsnefndar Hólmavíkurhrepps til að taka virkan þátt í og styðja við menningarlífið í héraðinu.