22/11/2024

Menningarsamningur undirritaður í Sævangi

Næstkomandi sunnudag verður skrifað undir samning um samstarf sveitarfélaga á Vestfjörðum um menningarmál í tengslum við stofnun Menningarráðs Vestfjarða og stuðnings ríkisvaldsins við það sem þegar hefur verið samþykktur. Undirritunin mun fara fram í Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum. Búast má við allmörgum fulltrúum sveitarfélaga og menningarstofnanna víðs vegar af Vestfjörðum á Strandir í tilefni dagsins. Vekur það óneitanlega upp þá spurningu hvort Vegagerðin verði búin að opna Tröllatunguheiði svo gestir af sunnanverðum Vestfjörðum þurfi ekki að aka suður á Laxársdalsheiði.

Það mun vera nánast daglegur viðburður nú um stundir að bændur sem búa næst veginum fari upp á heiði til að aðstoða ferðamenn sem þar sitja fastir enda eru merkingar ekki góðar.  

Undirritun samningsins á milli sveitarfélaganna er lokapunkturinn á samningsgerð milli ríkis og sveitarfélaga á Vestfjörðum um menningarmál á Vestfjörðum. Tilgangur þessa samnings er að efla menningarstarf á svæðinu og jafnframt verða áhrif heimamanna aukin í forgangsröðun verkefna á sviði menningarmála.

Á dagskrá verða, auk undirritunarinnar, ávörp formanns Fjórðungssambands Vestfirðinga og formanns Menningarráðs Vestfjarða og menningaratriði frá hinum þremur samstarfssvæðum um menningarmál á Vestfjörðum.