22/11/2024

Dagur umhverfisins tileinkaður loftslagsmálum

Dagur umhverfisins verður haldinn hátíðlegur í níunda skiptið á morgun þann 25. apríl. Fyrst var haldið upp á daginn árið 1999 og er hvatningardagur til fólks, sveitarfélaga og félagasamtaka að vinna að umhverfismálum með einhverjum hætti og kynna sér samskipti manns og náttúru. Dagur umhverfisins í ár er tileinkaður hreinni orku og loftlagsmálum, en það er málefni sem hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Víða um land er Dagur umhverfisins nýttur til að hvetja íbúa sveitarfélaga til að taka til í ranni sínum og huga að nánasta umhverfi sínu og veitt eru hverskonar umhverfisverðlaun- og hvatningar í sumum sveitarfélögum.

Dagur umhverfisins, 25. apríl, varð fyrir valinu en þann dag fæddist Skagfirðingurinn Sveinn Pálsson árið 1762. Sveinn stundaði nám í náttúrufræðum og læknisfræði við Kaupmannahafnarháskóla og lauk prófi í náttúrufræðum 1791 fyrstur Íslendinga. Sveinn hóf þá þriggja ára rannsóknir á íslenskri náttúru og var fyrstur til þess að stunda skipulegar náttúrufræðirannsóknir hér á landi. Dagurinn er hugsaður sem hvatning og sem tækifæri fyrir stjórnvöld, félagasamtök og fjölmiðla til að efla opinbera umræðu um umhverfismál.

Af því tilefni vill strandir.saudfjarsetur.is vekja athygli á grein sem Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur sendi fréttavefnum strandir.saudfjarsetur.is og birt var í gær og fjallar um umhverfismál og meðal annars skoðað hvaða loftlagsáhrif bygging olíuhreinsistöðvar hefur á umhverfið.