22/11/2024

Vegagerð milli Hólmavíkur og Drangsness flýtt?

Í skýrslu nefndar sem forsætisráðherra skipaði til að finna leiðir að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum er nokkuð fjallað um samgöngur. Þar er m.a. lagðar til breytingar á samgönguáætlun við endurskoðun fjögra ára áætlunar árið 2008 sem miða að því að flýta framkvæmdum. Mest áhersla er þar lögð á Vestfjarðaveg og göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, en einnig er lagt til að framkvæmdum við veginn milli Hólmavíkur og Drangsness verði flýtt þannig að framkvæmdum þar ljúki fyrir árslok 2010.

Vegurinn milli Drangsness og Hólmavíkur er um 37 kílómetra langur og er eini vegurinn á Vestfjörðum milli nálægra þéttbýlisstaða sem enn hefur ekki verið lagður bundnu slitlagi að öllu leyti. Þó liggur hann alla leið meðfram sjó og engin sérstök vandkvæði eru á vegagerð með Steingrímsfirðinum. Samkvæmt Samgönguáætlun 2007-2010 sem samþykkt var í vor, stóð ekki til að ljúka vegagerð þarna á tímabilinu. Strandamönnum hefur þótt sú áætlun algjörlega með ólíkindum og kröfur hafa verið um að vegagerðinni verði lokið í síðasta lagi árið 2009. Þykir mörgum það samt hálfum eða heilum áratug seinna en eðlilegt megi teljast.

Nýlega var boðinn út 7 km kafli frá vegamótum á Bjarnarfjarðarhálsi að Kleifum og á að ljúka honum á árinu 2007 samkvæmt útboðsgöngunum, en fjármagninu var þó skipt á árin 2007 og 2008 í Samgönguáætlun. Síðan var fjármagn í Samgönguáætlun til að hefjast handa við þá 7 kílómetra sem skildir hafa verið eftir á árinu 2009 og 2010, en dugir ekki til að ljúka vegagerðinni.

Að sögn Magnúsar V. Jóhannssonar svæðisstjóra Vegagerðarinnar á Norðvestursvæði liggur endanleg hönnun vegarins frá Staðará að Bjarnarfjarðarhálsi ekki fyrir og nokkrir valkostir verða til skoðunar um legu hans. Ekki er reiknað með því að nýjar brýr verði byggðar á Staðará og Selá.