21/12/2024

Ákvörðun menntamálaráðherra um viðbyggingu við verknámshús FNV fagnað

Aðsend grein: Svæðisfélög VG í Skagafirði og Húnaþingi 
Stjórnir svæðisfélaga Vinstri grænna í Skagafirði og Húnaþingi fagna þeirri ákvörðun menntamálaráðherra að í vor verði ráðist í viðbyggingu við verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. 
 

Vinstri græn hafa lagt á það mikla áherslu að efla verknám á landsbyggðinni og barist fyrir því að styrkja verknám við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á hans sérsviðum. Úrbætur á aðstöðuskorti skólans eru mikilvægur áfangi á þeirri leið. Verknám og iðnnám á landsbyggðinni hefur átt mjög undir högg að sækja, bæði hvað varðar fjármagn og áherslur á undanförnum árum. Það verður hlutverk næstu ríkisstjórnar að snúa af þessari braut og hefja verknám og iðnnám til vegs á ný enda er mikil þörf fyrir stórátak í iðnmenntun í landinu.

Vinstri græn leggja á það áherslu að framkvæmdir við FNV verði boðnar út hið fyrsta og að þau mannvirki sem ráðist verður í verði í eigu opinberra aðila og á ábyrgð ríkisins. Ennfremur skorar VG á þau sveitarfélög sem aðild eiga að skólanum að skorast ekki undan og taka þátt í þeirri uppbyggingu sem framundan er.