22/11/2024

Villur vega á Tunguheiði

Í nýjustu Framkvæmdafréttum Vegagerðinnar er fjallað um nýja veginn um Arnkötludal og Gautsdal, eins og áður hefur komið fram. Í miðopnu er birt heilmikið kort með veglínunni og verður ekki annað séð en það komi heim og saman við fyrirliggjandi upplýsingar. Síðunni framar er hins vegar mynd sem tekin er af gamla Tröllatunguheiðarveginum í heiðarbrekkunum að sunnanverðu. Á myndinni sér niður Bakkadal og er Valshamar lengst til hægri. Í myndatexta er hins vegar sagt að nýi vegurinn verði lagður að norðanverðu í dalnum, en hann á þó ekki að liggja um dalinn sem er á myndinni.

Þessar misvísandi upplýsingar eru líklega bara mistök, en þó hafa Strandamenn haft í flimtingum síðustu daga að þetta geti skýrt hvers vegna Vegagerðin vill endilega að vegurinn verði kallaður Tröllatunguvegur eða Tröllatunguheiði. Ef Vegagerðin sé ekki betur að sér um hvar vegurinn um Arnkötludal tengist Vestfjarðavegi nr. 60, en virðist af myndbirtingunni úr Bakkadal, sé komin skýring á fastheldninni við Tröllatungunafnið og þessum stórfellda örnefnaflutningi. Staðreyndin sé hins vegar að nýi vegurinn verður ekki lagður um Tröllatunguheiði, kemur hvergi inn í land jarðarinnar Tröllatungu og af honum verður ekki einu sinni afleggjari heim að bænum Tröllatungu.

Rætt var um málið í svæðisútvarpi Vestfjarða í dag og kom fram að Magnús Valur Jóhannsson, yfirmaður Vegagerðarinnar í kjördæminu, segir Vegagerðina ekkert  forpokaða í þessum efnum og kallar eftir umræðu um nafnið. Því eykst bjartsýni Strandamanna um að þeir og ríkisvaldið muni kalla nýja veginn sama nafni í framtíðinni.