Þann 10. mars næstkomandi fer Meistaramót Íslands í glímu fram á Ísafirði og verða Strandamenn þar heldur betur í sviðsljósinu. Glímukappar í Herði á Ísafirði eru núverandi Íslandsmeistarar í sveitaglímu í unglingaflokki 17-20 ára og eru tveir þeirra sem þar eru fremstir í flokki ættaðir af Ströndum, þeir Stígur Berg Sophusson frá Drangsnesi og Brynjólfur Örn Rúnarsson sem er ættaður frá Þiðriksvöllum. Þeir kappar sem eru 17 og 18 ára gamlir urðu í fyrsta og öðru sæti í keppninni um Vestfjarðabeltið og titilinn Glímukóngur Vestfjarða síðsta vor.
Um er að ræða menningarsögulegan viðburð því slíkt mót hefur aldrei í sögunni verið haldið á Vestjörðum fyrr. Bæði er um að ræða sveitakeppni og einstaklingskeppni og er Stígur sem stendur í þriðja sæti í einstaklingskeppninni í sínum flokki og á því góða von um verðlaunasæti. Í spjalli við fréttaritara strandir.saudfjarsetur.is sagði Stígur að þeir félagar æfðu um það bil fjórum sinnum í viku og sex glímumenn kepptu undir merkjum Harðar á meistaramótinu.
Strandamenn eru hvattir til að mæta á Ísafjörð og fylgjast með frændum sínum í þessari einstöku glímukeppni og hvetja áfram ykkar menn.
Glímukappar í Herði – blog.central.is/hordur-glima