22/11/2024

Þorrablót á Borðeyri

Þorrablótið á Borðeyri var haldið síðastliðinn laugardag. Þrátt fyrir sumarveðráttu þá var aðsóknin með minna móti, mun flensan eiga þar töluverða sök. Blótið var fínt og skemmtu gestir sér vel að vanda. Þorrablótsnefndin tróð upp með söng og gríni, þarna var einnig happadrætti, kappát og Spaðagosarnir tóku lagið, en það er orðinn þekktur sönghópur sem á það til að troða upp á þorrablótum á Borðeyri. Einar Georg Einarsson fór á kostum eins og honum er einum lagið þegar hann flutti annál ársins, þar sem farið var yfir lífshlaup samfélagsins frá liðnu ári. Þar skipti engu máli hvort um var að ræða spaugileg minningarbrot eða hin alvarlegustu mál, því oftast má sjá spaugilega hlið á öllu. Það er öllum nauðsynlegt að koma saman og hafa gaman.

Maturinn sem var góður kom frá Staðarskála. Dansinn dunaði svo fram eftir nóttu við undirleik Harðar G. Ólafssonar. Myndir frá skemmtuninni má nálgast undir þessum tengil.