25/11/2024

Strandagaldur ályktar um vegamál

Á stjórnarfundi Strandagaldurs ses haldinn þann 10. febrúar 2007 á Hólmavík ályktaði stjórn félagsins eftirfarandi:

    Stjórn Strandagaldurs skorar á samgönguyfirvöld að tryggja sem allra fyrst heilsárs samgöngur um Bjarnarfjarðarháls, allt frá vegamótum við Hálsgötugil í Steingrímsfirði yfir Bjarnarfjarðarháls og um Bjarnarfjörð. Vegurinn um hálsinn er varhugaverður umferð og hann ber ekki umferð fólksflutninga- og flutningabíla vor og haust. Það er mikilvægt fyrir starfsemi Strandagaldurs í Bjarnarfirði og fyrir byggð þar að vegurinn um Bjarnarfjarðarháls verði eins framarlega í forgangsröð samgöngubóta í héraðinu og kostur er.
    Strandagaldur vill beina þeim tilmælum til samgönguyfirvalda að flýta sem kostur er vegagerð á Strandavegi (nr. 643) frá Djúpvegi í botni Steingrímsfjarðar og alla leið norður í Árneshrepp. Strandagaldur stendur að uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu á Ströndum sem þrífst á góðum samgöngum og vegabætur á þessum slóðum eru afar mikilvægar fyrir íbúa og alla uppbyggingu.