21/11/2024

Sýningum lokið á Nönnu systur

Frá æfingu í Sævangi

Leikfélag Hólmavíkur setti í vetur upp leikritið Nanna systir eftir Einar Kárason og Kjartan Ragnarsson. Leikstjóri var Skúli Gautason. Leikarar voru 10 talsins. Leikritið var frumsýnt snemma í apríl og sýnt fjórum sinnum í Sævangi og fékk góðar viðtökur. Í lok apríl var síðan farið í mikla leikferð þar sem sýndar voru fimm sýningar á jafn mörgum dögum. Sýningarstaðir í þeirri ferð voru Búðardalur, Grundarfjörður, Lyngbrekka á Mýrum, Árgarður í Skagafirði og Víðihlíð í Húnaþingi vestra.

Sýningum var svo slúttað með 10. sýningu í félagsheimilinu Árnesi í Trékyllisvík. Mæting á leikritið var ljómandi góð að þessu sinni, einkum í leikferðinni. Í Árneshreppi voru 54 í salnum, sem hlýtur einnig að teljast ljómandi gott í samfélagi þar sem 38 eiga lögheimili. Leikfélag Hólmavíkur hefur oft slúttað í Árneshreppi, ef sýningarnar eru þannig að hægt sé að ferðast með þær.

Eftir sýningu í Árgarði í Skagafirði