22/11/2024

Sauðfjársetrið með nýjan vef

Áramótin eru að margra mati hentugur tími til breytinga og jólin sem eru nú að renna sitt skeið á enda eru án efa ein helsta hátíð íslensku sauðkindarinnar, sér í lagi blessaðra hrútanna. Í tilefni þess hefur verið unnið að því undanfarið að breyta og bæta vefsvæði Sauðfjárseturs á Ströndum auk þess að veita því nauðsynlega andlitslyftingu. Útliti vefjarins hefur verið breytt mjög og bætt hefur verið inn á vefinn um 60 nýjum síðum og enn fleiri myndum úr eigu safnsins. Ein helsta byltingin er Fróðleikskista Sauðfjársetursins, en í henni er að finna gríðarlega mikið efni um sauðkindina og sauðfjárbúskap á Íslandi.

Í kistuna er búið að safna saman öllum textum af sýningunni Sauðfé í sögu þjóðar og auk þess er þar fjöldinn allur af myndum sem fjölmargir aðilar hafa látið setrinu í té undanfarin ár. Meðal fleira efnis á vefnum má nefna atburðadagskrá ársins 2007, myndasyrpur frá ýmsum atburðum setursins í gegnum árin og allar nauðsynlegar upplýsingar um Félag áhugamanna um Sauðfjársetur á Ströndum og sýninguna Sauðfé í sögu þjóðar. Að sögn Arnars S. Jónssonar, framkvæmdastjóra Sauðfjársetursins, verður vefurinn uppfærður reglulega næstu misseri og haldið áfram að byggja hann upp.

Framundan eru  ýmis spennandi verkefni hjá setrinu, m.a. skráning á munum og myndum, endurskoðun á sýningunni í Sævangi og undirbúningur fyrir fimmtu spurningakeppni Sauðfjársetursins sem hefst þann 11. febrúar nk. og fer fram í félagsheimilinu á Hólmavík. Umsjónarmaður keppninnar, spurningahöfundur og spyrill verður fyrrnefndur Arnar S. Jónsson og lið geta byrjað að skrá sig nú þegar með því að hringja í síma 661-2009 eða senda tölvupóst í netfangið saudfjarsetur@strandir.saudfjarsetur.is.

Nýr vefur Sauðfjársetursins er á sömu slóð og venjulega; www.strandir.saudfjarsetur.is/saudfjarsetur.