Bílvelta varð í Hrútafirði í dag, þegar fólksbíll fór út af vegi í nágrenni við Kollsá. Eftir því sem næst verður komist urðu ekki slys á ferðalöngum, en bíllinn er illa farinn. Töluverð hálka er á blettum á veginum um Strandir. Einnig er frá því sagt á vefnum www.logregla.is að bifreið fór út af veginum við Hvítarhlíð í Bitru á nýársdag og voru þrír í bílnum. Nokkuð tjón varð á bifreiðinni, en ökumann og farþega sakaði ekki. Lögreglan á Hólmavík höfðu í liðinni viku afskipti af 6 ökumönnum sem óku yfir löglegum hámarkshraða á Ströndum.