Askasleikir kom við á ritstjórnarskrifstofu strandir.saudfjarsetur.is í dag í lítið viðtal. Hann var nú að flýta sér svo mikið að það kom varla orð af viti upp úr honum og hann gat stoppað mjög stutt. Hann leit við til að bera litla fréttatilkynningu úr Grýluhelli til allra barna um að eftirleiðis alla daga fram að Þorláksmessu þá verði einn jólasveinn á vakt við símann í hellinum. Grýla og Leppalúði fengu að gjöf frá Strandagaldri notaða tölvu í byrjun desember en þeim og tókst að narra niður til sín háhraðatengingu í gærkvöldi. Hægt verður að hafa samband við jólasvein í stutt spjall með því að nota símakerfið Skype og hringja í númerið gryluhellir, eins og Askasleikir orðaði það. Eins og kunnugt er þá gera jólasveinar engan greinarmun á tölustöfum og bókstöfum.
Til þess að geta notað Skype netsímakerfið þarf að byrja á því að fara á vefsíðuna www.skype.com og hlaða niður Skype netsímanum og búa sér til notendanafn. Það þarf bara að gera einu sinni. Eftir það er hægt að hringja gjaldfrjálst í jólasveinanna hvaðan sem er úr veröldinni, en þeir svara í netsímann milli klukkan 20:00 og 21:00 öll kvöld fram að Þorláksmessu.
"Svo munið það bara að símanúmerið er gryluhellir", hrópaði Askasleikir þegar hann hvarf út úr dyrunum og tók á sprett yfir flóann norður í land og í átt að Austfjörðum og Færeyjum.