Ólafsdalshátíðin í Gilsfirði verður haldin í tíunda skipti laugardaginn 12. ágúst. Dagskráin er sérlega glæsileg þetta árið (sjá hér að neðan), en meðal annars koma fram Laddi (Þórhallur Sigurðsson), söngvarinn Valdimar Guðmundsson og með honum gítarleikarinn Örn Eldjárn, félagar úr leikhópnum Lottu sem skemmta börnum og harmónikkufélagið Nikkólína í Dalabyggð. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra mun setja hátíðina.
Þá mun Birna Lárusdóttir forleifafræðingur leiða fræðslugöngu um minjastaði í Ólafsdal og einnig flytja erindi um það efni. Líkur eru á að fundist hafi víkingaaldarminjar í Ólafsdal auk hinna merku minja frá tímum Ólafsdalskólans (1880-1907).
Handverks- og matarmarkaður verður á staðnum og þar er skelfiskur í boði frá Nesskel á Króksfjarðarnesi, ís frá Erpsstöðum í Dölum og lífrænt vottað Ólafsdalsgrænmeti og annað lífrænt grænmeti verður til sölu. Frítt er inn á hátíðina en miðar verða seldir í veglegu Ólafsdalshappdrætti þar
sem fyrsti vinningur verður gjafabréf fyrir 100.000 kr með Icelandair. Veitingar eru seldar á hóflegu verði í umsjón kvenfélagskvenna á svæðinu.
Minjagangan hefst kl. 12.00, happdrættissalan kl. 13.00 og hátíðardagskráin kl. 14.00.
Ólafsdalshátíðin er frábær fjölskylduskemmtun á sögufrægum og fallegum stað sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.