22/11/2024

Söngkeppni Ozon 2006

Söngkeppni félagsmiðstöðvarinnar Ozon fer fram miðvikudagskvöldið 29. nóvember n.k klukkan 20:00. Keppnin er haldin í fjórða skiptið og fer fram á veitingastaðnum Café Riis. Húsið opnar klukkan 19:30 og er aðgangseyrir 300 krónur á mann. Frítt er fyrir alla yngri en 5 ára. Sjoppa nemendafélagsins verður á staðnum, gos, nammi og kaffi. Allur ágóði rennur í nemendasjóð. Þriggja manna dómnefnd sker úr um þrjá keppendur sem fá auk glæsilegra verðlauna keppnisrétt  í vestfjarðariðli í landshlutakeppni Samfés sem fram fer á Hólmavík í lok janúar á næsta ári.  Sigurvegarinn hlýtur einnig glæsilegan farandgrip til varðveislu í eitt ár. 

Allir þátttakendur fá viðurkenningu fyrir framgönguna. Áhorfendur fá einnig að velja vinsælasta flytjandann úr hópi keppenda.Fimm söngvarar munu etja kappi að þessu sinni. Aðalheiður Lilja Bjarnadóttir sem syngur lagið Vetrarsól eftir Gunnar Þórðarson, Anita Sonja Karlsdóttir sem flytur lagið Síðasta sumar eins og þær Sylvía Bjarkadóttir og Jóhanna Rósmundsdóttir.  Aðrir keppendur eru Agnes Jónsdóttir með lagið Creep eftir Radiohead og Daníel Birgir Bjarnason með lagið Boten Anna eftir Basshunter. Kynnir kvöldins verður Silja Ingólfsdóttir.

Hólmvíkingar eru hvattir til að mæta á þessa skemmtilegu uppákomu í menningarlífinu og styðja við bakið á söngvurunum og starfsemi félagsmiðstöðvarinnar.

Nemendaráð.