22/11/2024

Heimildamyndin Brotið sýnd á Galdrasýningunni

Heimildamyndin Brotið verður sýnd á Galdrasýningunni á Hólmavík kl. 15:00 sunnudaginn 19. febrúar og er viðburðurinn hluti af vetrarhátíð Strandagaldurs. Fyrir sýningu segir Haukur Sigvaldason frá gerð myndarinnar, en hann hefur ásamt Maríu Jónsdóttur og Stefáni Loftssyni unnið að henni síðustu ár. Í myndinni er fjallað um sjóslys sem urðu á utanverðum Eyjafirði í aftakaveðri 9. apríl 1963. Samfélagið á Dalvík varð þá fyrir miklu höggi, því sjö sjómenn frá plássinu fórust. Fjallað er um slysin og afleiðingar þeirra á samfélagið.

Aðstandendur myndarinnar hafa víða leitað fanga við heimildaöflun, tekið viðtöl og safnað myndefni.
Höfundar Brotsins eiga rætur á Dalvík og er myndin afurð samvinnu þeirra.

Aðgangur að viðburðinum er enginn, en myndin verður til sölu á staðnum á DVD-diski. Allir eru velkomnir. Ljósmyndin sem fylgir fréttinni er stilla úr kynningarmyndbandi um Brotið.