25/11/2024

Vel á þriðja tug þátttakenda

Vel á þriðja tug Hólmvíkinga tóku þátt í boltaleiknum "yfir" sem haldinn var í dag við gamla barnaskólann á Hólmavík. Áhugafólk um varðveislu hússins skipulagði leikinn sem var til þess gerður að rifja upp liðna tíð þegar leikir í og við Plássið stóðu sem hæst og að vekja athygli á verndun hússins á jákvæðan hátt. Þátttakendur voru á öllum aldri og það var gaman að sjá fólkið koma saman og leika sér. Boltaleikurinn fór brösuglega af stað þar sem snjóað hafði á þakið en boltinn sat fastur á þakinu eftir fyrsta kast. Eftir að búið var að sækja stiga og sópa mesta snjónum af þakinu þá gat leikurinn haldið áfram og stóð í tæpa klukkustund.

Það lið stóð uppi sem sigurvegari sem hafði flesta þátttakendur eftir klukkustundar leik. Til tals kom að efna til árlegrar heimsmeistarakeppni í "yfir" við gamla barnaskólann í framtíðinni sem hefjist næstu Hamingjudaga á Hólmavík þar sem skorað verði á burtflutta Hólmvíkinga.

Bónarbókin þar sem hægt er að rita nöfnin sín til stuðnings verndunar hússins verður áfram við gamla barnaskólahúsið og eru allir áhugasamir um verndunina hvattir til að rita nöfn sín í hana.