22/11/2024

Húsafriðunarnefnd er tilbúin með skyndifriðun

Samkvæmt upplýsingum sem strandir.saudfjarsetur.is hefur aflað sér er talið líklegt að sveitarstjórn Strandabyggðar ákveði á fundi annað kvöld að fresta ákvörðun um niðurrif á gamla barnaskólanum á Hólmavík. Magnús Skúlason forstöðumaður Húsafriðunarnefndar fundaði óformlega með sveitarstjórnarmönnum á Hólmavík í morgun og skoðaði jafnframt húsið í bak og fyrir. Magnús sagði í viðtali við strandir.saudfjarsetur.is að Húsafriðunarnefnd væri tilbúin með skjal til skyndifriðunar á húsinu sem muni gilda í tvær vikur eftir dagsetningu þess en Húsafriðunarnefnd getur tekið ákvarðanir um skyndifriðun upp á sitt einsdæmi.

Húsafriðunarnefnd barst fyrir helgi undirskriftarskjal frá íbúum Strandabyggðar með undirskriftum ríflega 60 íbúa sveitarfélagsins með bón um frestun á niðurrifi hússins. Um það bil 30 manns hafa auk þess skrifað í bónarbók sem er við gamla barnaskólann. Samkvæmt upplýsingum strandir.saudfjarsetur.is mun verða haldið áfram að safna nöfnum á undirskriftarlista hjá íbúum Strandabyggðar.

Líklegt má telja að sveitarstjórn fresti ákvarðanatöku fram yfir fund Húsafriðunarnefndar ríkisins þann 30. nóvember n.k.