Fyrsta Haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga verður haldið í Félagsheimilinu á Hólmavík 9.-10. september og hefst um hádegisbilið í dag. Búist er við því að um 70 manns mæti á þingið á vegum sveitarfélaga á Vestfjörðum. Í tilkynningu frá FV segir: „Dagskrá þingsins er fjölbreytt og margir góðir gestir ætla að heiðra þingið með nærveru sinni. Ávörp munu flytja Ólöf Nordal innanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Málefni þingsins er stefnumörkun í málaflokkum sveitarfélaga á Vestfjörðum.“
Á dagskrá þingsins er umfjöllun um stefnu og framtíðarsýn sveitarfélaga á Vestfjörðum og í tengslum við hana mun Hrafnkell Á Proppé, skipulagsstjóri SSH, flytja erindi um framkvæmd svæðisskipulags. Einnig er stefna og innra skipulag Fjórðungssambandsins til umræðu og samstarf við Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Dagskrá og efni þingsins má finna undir þessum tengli.