Í yfirliti um verkefni lögreglunnar á Vestfjörðum sem birt er á Fésbókarsíðu hennar kemur fram að á þriðjudaginn fyrir viku óskaði starfsmaður Fiskistofu eftir aðstoð lögreglunnar vegna gruns um framhjálöndun í Bolungarvík. Það mál er til rannsóknar. Aðfaranótt 24. ágúst barst lögreglu hjálparbeiðni frá þremur erlendum ferðamönnum sem voru nýlega komnir til hafnar á Suðureyri með erlendri skútu. Þeir höfðu deilt við skipstjóra skútunnar sem þeir sögðu ölvaðan og æstan og að hann hefði haft í hótunum. Þeim þótti standa ógn af skipstjóranum sem væri með skotvopn um borð. Lögreglumenn fóru með öryggisbúnað og vopn til Suðueyrar, meðan sérsveit var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Ísafjarðar og þaðan á vettvang. Sérsveitarmenn fóru svo um borð í skútuna og handtóku skipstjórann.
Skipstjórinn var fluttur á Ísafjörð og af honum látin renna áfengisvíman svo hægt væri að yfirheyra hann. Aðrir áhafnarmeðlimir voru yfirheyrðir sama dag. Skipstjórinn féllst á að gangast við sátt vegna brots á reglum um tilkynningaskyldu skipa og meðferðar á þeim vopnum sem fundust um borð. Skipstjórinn var látinn laus að þessu loknu og vopnin afhent tollgæslu.
Á fimmtudaginn hafði lögreglan og áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar afskipti af áhöfn lítils fiskibáts í Norðurfirði á Ströndum. Stjórnstöð gæslunnar hafði vísað bátnum til næstu hafnar, en hann hafði verið að veiðum án gilds haffærisskírteinis, auk þess sem lögskráningu var ábótavant. Vöknuðu grunsemdir um að áhafnarmeðlimir væru báðir undir áhrifum fíkniefna og voru þeir handteknir og færðir með þyrlu til Hólmavíkur þar sem viðeigandi rannsókn og sýnatökur fóru fram.
Í vikunni hafði lögreglan afskipti af ökumanni bifreiðar með kerru með svo fyrirferðarmiklum farmi að hliðarspeglar dugðu ekki svo útsýni væri fullnægjandi. Þá var kerran vanbúin með ljós og má bílstjóri búast við sekt. Ökumaður var stöðvaður á Ísafirði á tveimur negldum hjólbörðum og mun fá sekt. Tilkynnt var um fimm tilvik þar sem ekið var á búfé á Vestfjörðum. Alls voru 17 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku. Lögreglan stöðvaði ökumann í vikunni, grunaðan um að aka undir áhrifum áfengis í Önundarfirði. Skráningarnúmer voru tekin af 7 ökutækjum sem ekki höfðu verið færðar til lögbundinnar skoðunar.
Tilkynnt var um þrjú vinnuslys í vikunni. Eitt í fiskvinnslufyrirtæki þar sem starfsmaður meiddist á hendi í færibandi, annað á löndunarbryggju þegar lyftara var ekið á manneskju sem gekk um vinnusvæðið og það þriðja við garðslátt þar sem lítil sláttutraktor valt yfir stjórnandann. Þau slösuðu voru flutt á Heilbrigðisstofnunina á Ísafirði en hlutu ekki alvarleg meiðsl.