Gott á selurinn á Ströndum, liggur allan liðlangan daginn á skerjum og flúrum og baðar sig í sólinni, rétt rumskar til að teygja úr sér öðru hverju. Víða á svæðinu má sjá seli, þeir eru eitt af einkennum Stranda, rétt eins og rekaviðurinn, sauðkindin, æðarfuglinn og sóleyjabreiður á túnum. Við Kirkjuból í Steingrímsfirði liggja oft selir á flúrum við Hundatanga og Langatanga, þó ekki yfir hásumarið. Þegar haustar að og á vorin má hins vegar oft sjá þarna mikinn selafjölda þarna og sömuleiðis fjölda ferðalanga að skoða selina og taka af þeim myndir. Þeir eru orðnir býsna gæfir og vanir mannaferðum og hægt að komast nokkuð nálægt þeim, án þess að raska ró þeirra.
Selir í Hundatanga – ljósm. Jón Jónsson