25/11/2024

Verkefni vikunnar hjá lögreglunni á Vestfjörðum

lögreglubíll, lögga, lögregla

Í frétt á facebooksíðu lögreglunnar á Vestfjörðum sem dagsett er 3. ágúst er upptalning á verkefnum liðinnar viku. Þar kemur m.a. fram að þrír ökumenn voru stöðvaðir í liðinni viku, grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Einn á Ísafirði og tveir í Ísafjarðardjúpi, annar þeirra er einnig grunaður um ölvun við akstur. Tveir gistu fangageymslu á Ísafirði um liðna helgi. Annar fannst ölvaður inni á vínveitingastað á Ísafirði, 17 ára. Hann lét ófriðlega og var settur í fangaklefa. Hinn var einnig ölvaður og með ólæti. Báðir voru látnir sofa úr sér vímuna.

Ein bifreið var stöðvuð á Ströndum, á negldum hjólbörðum allan hringinn. Ökumanni var gerð sekt fyrir athæfið. Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu í miðbæ Ísafjarðar. Einn ökumaður var stöðvaður með fleiri farþegar en bifreiðin er gefin upp fyrir. Ungt barn sat í kjöltu fullorðins farþega. Sex voru kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti, þar af tveir farþegar, í öllum tilvikum var um að ræða akstur um götur í Vesturbyggð. Þá höfðu lögreglumenn afskipti af ökumanni fólksbifreiðar með svo stórt hjólhýsi í eftirdragi að ökumaður gat ekki séð aftur fyrir hýsið.

120 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku. Tilkynnt var um fjögur umferðaróhöpp, í einu tilvikinu var um að ræða bílveltu í Breiðuvík. Engin meiðsl urðu á ökumanni eða farþega og hin þrjú óhöppin voru minniháttar.

Lögreglan var með aukið eftirlit á öllum helstu akstursleiðum í umdæminu. Skemmtanahald fór almennt vel fram þar sem það átti sér stað í umdæminu og allir komu heilir heim.