Í fundargerð byggingarnefndar Strandabyggðar kemur fram að byggingafulltrúa hafi verið falið að setja sig í samband við Byggðasafn Húnvetninga- og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði vegna varðveislu bátsins Hilmir ST-1 á Hólmavík, sem var dreginn á þurrt fyrir um áratug síðan. Það kom fram í gögnum sem félagið Mummi á Hólmavík, félag um varðveislu Hilmis, sendi byggingarnefnd Strandabyggðar um málið að félaginu hefði borist bréf frá stjórn Byggðasafnsins þar sem fram kom að Byggðasafnið hafi verið tilbúið að hafa umsjón með varðveislu bátsins á sínum tíma. Þetta kemur fram í nýjustu fundargerð byggingarnefndar sem er birt í hólfi Strandabyggðar hér á strandir.saudfjarsetur.is.
Byggingarnefnd hafði áður óskað eftir svörum frá félaginu varðandi áætlanir þess um varðveislu bátsins vegna álits nefndarinnar að bátnum væri ekki sýnd nægileg virðing með varðveislu í núverandi ástandi og væri auk þess hættulegur börnum að leik.