22/11/2024

Samþykkt að vinna að reglum um kattahald

Sveitarstjórn Strandabyggðar tók í gær fyrir á fundi sínum erindi frá íbúa í sveitarfélaginu vegna lausagöngu katta. Í erindinu var lausagöngu dýranna í sveitarfélaginu mótmælt og þess farið á leit við sveitarstjórnina að hún grípi til einhverra aðgerða vegna þessa málaflokks, til að sporna við aukinni ágengni og fjölgun katta. Sveitarstjórnin ákvað að fela Ásdísi Leifsdóttur sveitarstjóra að setja saman drög að reglum um kattahald fyrir næsta fund, sem verður að öllum líkindum eftir hálfan mánuð. Kattaeigendur á Hólmavík og nágrenni mega því að öllum líkindum fara að undirbúa sig fyrir einhverjar breytingar í þessum málaflokki á komandi misserum, en ekki er ljóst hvernig þær breytingar verða.

Samþykktir og reglur um kattahald er að finna í mörgum sveitarfélögum landsins, svo sem á Seltjarnarnesi, Reykjavík, Akranesi, Árborg, Akureyrarbæ, á Suðurnesjum og víðar. Dæmi um slíkar samþykktir er meðal annars að finna á vef Stykkishólmsbæjar, en sú samþykkt er ítarleg og að öllum líkindum gott dæmi um það sem gengur og gerist í þessum málaflokki í sveitarfélögum úti á landi. Í henni kemur m.a. fram að íbúum Stykkishólmsbæjar er ekki heimilt að halda fleiri en tvo ketti eldri en þriggja mánaða í einu.