Hinar hefðbundnu leitir hefjast í Árneshreppi helgina 8.-9. september og eru það tveir leitardagar. Er þá byrjað á norðursvæðinu föstudaginn 8. september og leitað svæðið norðan Ófeigsfjarðar, komið í Ófeigsfjörð um kvöldið og fé haft í girðingu þar yfir nóttina. Síðari daginn, laugardaginn 9. september, verður leitað frá Ófeigsfirði og um fjalllendið austan Húsár að Reykjarfjarðartagli um Sýrdal og Seljaneshlíð út með Glifsu, um Seljárdal og Eyrardal, að Hvalhamri yfir Eyrarháls og síðan réttað í Melarétt.
Laugardaginn 16. september verður síðan leitað á Reykjarfjarðarsvæðinu. Er þá leitað frá Skarðagili fram að Reykjarfjarðartagli og austan meigin er leitað frá Búrfelli út Kjósarfoldir og með Háafelli til sjávar að Kleyfará. Þá verður réttað í Kjósarrétt í botni Reykjarfjarðar.
Bændur hafa nú undanfarna daga verið að smala heimalönd sín og verða að vera búnir að því fyrir hinar skipulögðu leitir (skylduleitir). Einnig verða bændur að vera búnir að smala frá Kaldbaksvík til Veiðileysufjarðar fyrir leitirnar 16. september. Í heimasmölunum vantar alltaf fólk en í hinum skipulögðu leitum kemur yfirleitt mikið af sjálfboðaliðum, jafnvel útlendingar.