22/11/2024

Slitlagsviðgerðir í Bitrufirði

Viðgerðir á bundna slitlaginu í Bitrufirði hafa verið í gangi síðustu daga og vissara að fara varlega þar sem lausamöl er og það er ekki að fullu þjappað ennþá. Reyndar er alltaf vissara að fara varlega á einbreiða slitlaginu í Bitrunni, enda er það með eindæmum ójafnt, mikil hjólför í því, holt og hólar. Undirlagið hefur þar á löngum köflum ekki veginn borið þungaflutninga síðustu ára og skemmst mikið án þess þó að slitlagið brotni endilega, þannig að þar er jafnvel varasamt að aka á löglegum hraða.

Mjög erfitt er að mynda bundna slitlagið þannig að misfellurnar sjáist vel, en ef þessar myndir "prentast" þokkalega ætti þó að vera hægt að greina hversu ótrúlega ójafnt slitlagið er við Bitrufjarðarbotninn norðanverðan. Að ganga þar eftir veginum jafnast á við bestu fjallgöngu. Maður getur rétt ímyndað sér hvernig sé að aka um slíkan óveg fyrir ókunnuga á mótorhjóli þar sem maður hendist til og frá í sínum fjallabíl á hægum akstri um veginn, enda hafa ekki verið uppi neinar merkingar um þessar ójöfnur. Eins eru kantarnir utan við slitlagið víða brotnir og lægri en slitlagið sjálft sem skapar mikla hættu þegar óvanir mæta bílum á þessu svæði.

Framkvæmdum við að breikka slitlag í Hrútafirði er nú að ljúka og aðeins eftir frágangur og vinna frá Hlaðhamri að Kjörseyri. Óskandi væri að í beinu framhaldi væri farið í samskonar aðgerð í Bitrunni, enda eru margir sammála um að það verkefni ætti að vera mjög framarlega í forgangsröðinni hvað varðar vegabætur og umferðaröryggi á Ströndum.

Ljósm. Jón Jónsson