Hrefnur gerðu sig heimakomnar í Hólmavík um klukkan hálf ellefu í gærkvöldi og að sögn Benedikts S. Péturssonar þá voru þær að gæða sér á síli eða síld utan við stofugluggann hjá honum. "Við tókum eftir hrefnu sem var að gæða sér á síli eða síld fyrir framan stofugluggann hjá okkur" segir Benedikt, "og þegar betur var að gáð þá komu fleiri dýr í ljós, að minnsta kosti fjórar hrefnur sem voru að gæða sé á glitrandi fiski sem mér sýndist frekar vera síld heldur en síli. Um ellefu voru komnar þó nokkuð margar torfur af vaðandi síld eða sílum nánast alveg upp í fjöru og hrefnurnar dóluðu utar ánægðar eftir góða kvöldmáltíð" sagði Benedikt og bætti við að hann geri fastlega ráð fyrir að hrefnurnar komi aftur í kvöldmat í kvöld.
Myndir þær sem fylgja eru teknar af hrefnu sem kom reglulega í júlí á síðasta ári í ætisleit upp í Hólmavíkina. Eitt dýrið var minnst, líklega kálfur, gætu hin verið móðir, faðir og kannski stóri bróðir?
Samkvæmt rannsóknum Hafró þá var tæpur helmingur (48,1%) veiddra kúa kynþroska, en þungunartíðni var nálægt 0,9 afkvæmum á ári, sem sýnir að hrefnan á langoftast afkvæmi á hverju ári. Meðallengd kúa í afla var 7,34 m, sem er svipuð lengd og við kynþroska, en það samsvarar um 6 ára aldri. Fullvaxta kýr eru að meðaltali 8,4 m. Tarfar verða kynþroska nokkuð yngri (5 ára) og minni eða um 7,1 m langir, en meðallengd fullvaxta tarfa er 7,8 m.
Ljósm:. Ben. S. Pétursson og Hafró