22/11/2024

Ellen Björg Björnsdóttir skákmeistari Árneshrepps

Ellen Björg Björnsdóttir frá Melum varð skákmeistari Árneshrepps á laugardaginn, þegar Hrókurinn stóð fyrir árlegu meistaramóti í Trékyllisvík. Ellen Björg er aðeins 15 ára og fyrst kvenna til að hampa meistaratitlinum í þessum nyrsta byggða hreppi á Ströndum. Í sigurlaun hlaut hún forláta refaskinn frá Grænlandi, þar sem Hrókurinn var á ferð í ágústbyrjun.

Nokkrir liðsmenn Hróksins tefldu sem gestir á meistaramótinu og alls voru keppendur 23. Stórmeistarinn Henrik Danielsen, nýbakaður Grænlandsmeistari 2006, sigraði í öllum 8 skákum sínum. Næstflesta vinninga hlaut Karl Jóhann Þorsteins og þriðji var Hrafn Jökulsson.

Ellen Björg hlaut meistaratitilinn eftir harða baráttu við Ingólf Benediktsson bónda í Árnesi, sem sigraði á mótinu í fyrra, Björn Torfason bónda á Melum, Guðmund Jónsson í Stóru-Ávík og fleiri harðskeytta heimamenn. Keppendur á mótinu voru á öllum aldri og voru sumir að tefla á sínu fyrsta skákmóti. Þannig hlaut hin 6 ára Ásta Ingólfsdóttir sérstök verðlaun fyrir að vera yngst allra.

Mótið var haldið í félagsheimilinu Árnesi, þar sem jafnframt var haldin sýning á ljósmyndum frá Grænlandi. Ljúffengar veitingar voru bornar fram af húsfreyjum sveitarinnar og fór mótið hið besta fram.

Meistaramótið var tileinkað Guðmundi Jónssyni í Stóru-Ávík, sem varð sextugur ekki alls fyrir löngu. Guðmundur hefur jafnan verið dyggur liðsmaður skákgyðjunnar og hlaut að gjöf forláta skáksett sem notað var á Grænlandsmótinu í Tasiilaq. Í landi Stóru-Ávíkur er einmitt hinn svonefndi Grænlandssteinn, feikimikið bjarg sem barst með borgarís frá Grænlandi fyrir þúsundum ára.

Hrókurinn á vinum að fagna í Árneshreppi og verður aftur á ferðinni innan tíðar.

Frétt. www.hrokurinn.is. – Ljósm. Jón G.G. – www.litlihjalli.it.is