22/11/2024

Hringtenging ljósleiðara á Vestfjörðum og Snæfellsnes boðin út

leikskóli leikskólabörn

Auglýst hefur verið á vef Ríkiskaupa útboð á fyrri áfanga við hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum. Einnig er boðin út hringtenging Snæfellsness. Ríkiskaup stendur fyrir útboðinu, fyrir hönd Fjarskiptasjóðs sem áformar að gera samning við þann sem á hagkvæmasta tilboðið og uppfyllir hæfniskröfur. Sá aðili á síðan að hanna, byggja, reka og eiga ljósleiðarastrenginn og felur samningurinn í sér að Fjarskiptasjóður veitir opinberan fjarhagslegan stuðning til verkefnisins. Vestfirðir eru nú tengdir landsneti fjarskipta með einfaldri ljósleiðaratengingu og er fyrirhugað að tvöfalda tenginguna með ljósleiðarastreng sem fer aðra leið en núverandi strengur. Ekki er skýrt í tilkynningunni hver fyrri áfangi hringtengingarinnar er, en telja má fullvíst að þar sé rætt um streng um Strandir frá Hrútafjarðarbotni til Hólmavíkur, í ljósi þess að seinni áfangi er sagður um Ísafjarðardjúp að Súðavík.

Auglýst var í lok febrúar eftir markaðsáformum fjarskiptafyrirtækja um að ljúka umræddum ljósleiðarahringtengingum án opinberra styrkja. Engin tilkynning barst um slík áform en fjórir aðilar tilkynntu hins vegar um áhuga á að taka verkefnið að sér gegn opinberum styrk. Fjarskiptasjóður ákvað því að bjóða framkvæmdirnar út.

Opnun tilboða er hjá Ríkiskaupum, Borgartúni 7c, föstudaginn 24. apríl kl. 11:00, en auglýsinguna sjálfa má nálgast á vef Ríkiskaupa. Á vef Innanríkisráðuneytisins kemur fram að stefnt sé að því að skrifa undir verksamninga í byrjun maí.