22/11/2024

Þakkir frá Körfuknattleiksfélagi Ísafjarðar

kfi-hopur

Vefnum strandir.saudfjarsetur.is hefur borist svohljóðandi bréf, undirritað af Birnu Lárusdóttur, fyrir hönd Barna- og unglingaráðs KFÍ: „Körfukattleiksfélag Ísafjarðar sent iðkendur sína á stærsta körfuboltamót landsins, Nettómótið í Reykjanesbæ, sem fram fer fyrstu helgina í mars ár hvert. Síðastliðin þrjú mót hefur brugðið svo við að hópurinn okkar hefur orðið veðurtepptur á eða við Hólmavík á heimleiðinni og fer bráðum að líða að því að við bætum þessum sólarhring við reglulega dagskrá okkar þessa helgi. Síðastliðið sunnudagskvöld þurfti aðeins örfá símtöl og þá var hópurinn kominn í örugga gistingu í íþróttahúsinu á Hólmavík þar sem afar vel fór um mannskapinn fram að brottför til Ísafjarðar í gærmorgun.“

Hópurinn vill koma á framfæri „einlægu þakklæti okkar í KFÍ til allra þeirra sem hafa liðsinnt okkur í þessum árlegu hremmingum okkar. Listinn er langur en fyrst er að nefna starfsfólk sveitarfélagsins og húsráðendur í íþróttahúsinu þau Salbjörgu, Gunnar og Úlfar sem hafa í tvígang gert okkur kleift að gista í íþróttahúsinu. Starfsfólki Kaupfélags Steingrímsfjarðar viljum við einnig þakka en það hefur verið boðið og búið að aðstoða okkur í matarmálunum. Björgunarsveitinni Dagrenningu þökkum við líka fyrir ómetanlega hjálp fyrir tveimur árum þegar hluti hópsins festist á miðri Steingrímsfjarðarheiði. Að endingu viljum við nefna hana Ragnheiði Ingimundardóttur sem reyndist stoð okkar og stytta í fyrstu ógöngum okkar og hún hefur jafnan verið okkur innan handar síðan. Við ítrekum þakklæti okkar og fullyrðum að það er leitun að betri gestgjöfum en Strandamönnum.“

Á meðfylgjandi mynd má sjá KFÍ iðkendurna sem gistu Hólmavík á sunnudagskvöld en myndin er tekin að aflokinni verðlaunaafhendingu í Keflavík rétt áður en þau lögðu af stað vestur á sunnudag.