25/11/2024

Strandagaldur þróar minjagripi

Galdrasýning á Ströndum á HólmavíkÁ næstu vikum fer í gang verkefni hjá Strandagaldri við vöruþróun minjagripa fyrir Galdrasýningu á Ströndum, en stefnt er að því að minjagripagerð sýningarinnar verði að mestu sjálfbær um gerð muna sem seldir verða í sölubúðinni í framtíðinni.

Frá því að Galdrasýning á Ströndum opnaði vorið 2000 hefur verið unnið markvisst að því að auka tekjur af minjagripasölu. Á síðasta ári var velta sölubúðarinnar orðin nánast jafnmikil og aðgöngumiðasala en stefnt er að því að á komandi árum verði velta sölubúðarinnar tvöfalt meiri en tekjur af aðgangseyri.

Því hafa forsvarsmenn Strandagaldurs ákveðið að fara í umfangsmikla þróunarvinnu í vetur og hverskyns tilraunastarfsemi með efni og hugmyndir sem hafa komið upp undanfarnar vikur og að framleiða lager fyrir næsta sumar.

Það er því eins víst að vöruúrval eigi eftir að stóraukast í sölubúð Galdrasýningar á Ströndum og að þar verði hægt að kaupa vandaðar nábrækur, tilbera og hverskyns galdrakalla og aðrar vörur, auk alls annars sem hefur verið á boðstólum þar áður. Eins verður hugað að sérstakri vörulínu fyrir "Kotbýli kuklarans" á Klúku í Bjarnarfirði sem opnar í vor.

Heimasíða Galdrasýningar á Ströndum er http://www.vestfirdir.is/galdrasyning/.