Sauðfjársetur á Ströndum stóð fyrir spurningakeppni milli héraða við upphaf Hamingjudaga á Hólmavík. Þar mættu vaskar sveitir Borgfirðinga, Húnvetninga, Dalamanna og Strandamanna og kepptu sín á milli í skemmtilegum spurningaleik að viðstöddum fjölda áhorfenda. Fór svo að lokum að Strandamenn sigruðu Borgfirðinga í úrslitakeppni 19-16. Keppnislið Húnvetninga tróð upp í hléi með söngatriði sem gestir höfðu afar gaman af.
Allar keppnirnar voru spennandi og góð stemmning bæði hjá keppendum og áhorfendum sem voru um 70-80. Fékk keppnin nokkra samkeppni frá indælu sumarveðri sem var sama kvöld og gripu margir heimamenn tækifærið til að skreyta hús sín.
Það var Sauðfjársetur á Ströndum sem stóð fyrir keppninni og umsjónarmaður með henni, spurningahöfundur og spyrill var Arnar S. Jónsson frá Steinadal. Í sigurliði Strandamanna voru Kristján Sigurðsson á Hólmavík, Þorvaldur Hermannsson á Ósi og Jón Jónsson á Kirkjubóli.
Myndir frá keppninni