22/11/2024

Sumarmölin – tónlistarhátíð á Drangsnesi

sumarmolin2014

Tónlistarhátíðin Sumarmölin verður haldin í annað sinn í Samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi laugardagskvöldið 14. júní næstkomandi. Þar koma fram Moses Hightower, Samarais, Púsl, Sin Fang, Prins Póló, Borgo og Futuregrapher og Hermigervill. Sumarmölin er fjölskylduvæn tónlistarhátíð þar sem ungir og aldnir skemmta sér saman við tónlistarflutning margra fremstu listamanna landsins. og skemmtanaþyrstir gestir skemmt sér áfram á Malarkaffi þar sem prinsinn í Popplandi, Matthías Már Magnússon þeytir skífum fram eftir nóttu. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 19:30 en húsið opnar um hálftíma fyrr. 16 ára aldurstakmark er á tónleikana en yngri gestir eru hjartanlega velkomnir í fylgd fullorðinna. Miðaverði er stillt í hóf en einungis 4500 kr. kostar á hátíðina og 2500 kr. fyrir 12 ára og yngri. Forsala miða fer fram á midi.is http://midi.is/tonleikar/1/8298.

MOSES HIGHTOWER hafa um árabil glatt landsmenn með grípandi lagasmíðum, seiðandi söng, frábærum hljóðfæraleik og skemmtilegum texum. Þeir hafa átt mörg vinsælustu lög landsins á síðustu árum og hafa gefið út tvær breiðskífur sem báðar hafa notið fádæma vinsælda.

SAMARIS sigruðu Músíktilraunir árið 2011 og hafa sigrað hug og hjörtu víða um lönd síðan þá. Þríeykið gaf nýverið út sína fyrstu stóru plötu sem ber heitið Silkidrangar plötu en hún kom út á vegum bresku útgáfunnar One Little. Samaris leika draumkennda raftónlist með ljóðrænum íslenskum textum.

PÚSL er unglingahljómsveit skipuð 12-16 ára Drangsnesingum sem hafa komið fram við ýmis tækifæri á undanförnum tveimur árum. Þau koma nú í fyrsta sinn fram á Sumarmölinni og munu leika sígilda smelli í bland við brakandi ferska poppslagara.

SIN FANG er listamannsnafn Sindra Más Sigfússonar sem hefur um árabil verið einn af framvörðum íslenskrar jaðartónlistar. Eftir að hljómsveitin Seabear lagði upp laupana hefur Sindri flutt haganlega smíðuð popplög sín víða um lönd, bæði einn síns liðs og studdur af hljómsveit.

PRINS PÓLÓ varði síðasta vetri á Bæ III, rétt utan við Drangsnes, þar sem hann fínpússaði nýjustu plötu sína, Sorrí, ásamt því að sinna öðrum störfum. Hann snýr nú aftur niðrá Strönd og kemur á Drangsnes með fullskipaðri hirð. Prins Póló mun vafalítið hrista upp í gestum Sumarmalarinnar með tipp topp flutningi á sínum helstu smellum.

BORKO og FUTUREGRAPHER munu á Sumarmölinni leiða sama hesta sína í glænýju samstarfsverkefni þar sem haganlega smíðaðri raftónlist Tálknfirðingsins Árna Grétars og margslungnum tónsmíðum Borkos verður hrært saman í áhugaverðan graut sem bragð verður að.

HERMIGERVILL er hliðarsjálf Sveinbjörns Thorarensen sem leikur dansvænar útgáfur af íslenskum dægurperlum í bland við sína eigin stuðvekjandi smelli. Þegar Hermigervill hefur leik munu jafnvel þeir allra fótafúnustu vilja draga fram dansskóna.