Söngvakeppnin Samvest sem er vestfirska undankeppnin fyrir söngvakeppni Samfés verður haldin á Hólmavík í kvöld, föstudaginn 17. janúar. Hefst keppnin kl. 19:00 í félagsheimilinu, en húsið opnar kl. 18:30. Þrjú atriði frá Félagsmiðstöðinni Ozon á Hólmavík taka þátt í keppninni, en einnig keppa fjölmörg atriði vestan af fjörðum, þannig að það verður líf og fjör og fullt af ungu fólki á Ströndum í dag og kvöld. Aðgangseyrir að söngvakeppninni er 1.000.- en frítt fyrir 6 ára og yngri. Borga þarf í beinhörðum peningum, en allir eru velkomnir á keppnina. Á eftir er ball fyrir ungu kynslóðina þar sem Dj sveppz mætir á svæðið og heldur uppi stuðinu.