22/11/2024

Valgerður Sverrisdóttir á Hólmavík

Að loknum aðalfundi AtVest á Hólmavík í gær var haldinn opinn kynningarfundur þar sem Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra var frummælandi. Sagði hún frá vinnu við Byggðaáætlun 2006-9, frumvarpi um Nýsköpunarmiðstöðina og talaði um byggðamál og þróun á Vestfjörðum. Eins héldu starfsmenn AtVest framsögur og sögðu frá þeim verkefnum sem þeir hafa verið að vinna að og Aðalsteinn Óskarsson fór yfir stöðu mála í atvinnuþróun á Vestfjörðum, hvar sóknarfærin lægju helst og hvar hnífurinn stæði í kúnni.

Fundurinn var vel sóttur og bráðskemmtilegar umræður urðu um atvinnumálin. Var ekki annað að heyra en að fundarmenn væru sammála um að treysta á frumkvöðlakraft og nýsköpun á svæðinu, en höfnuðu öllum hugmyndir um að menn festust í einstökum verkefnum sem kalla mætti töfralausnir. Álver á Vestfjörðum kom ekki til greina hjá fundarmönnum og var ekki annað að heyra en ráðherrann væri hinn ánægðasti með það, enda er kannski yfrið nóg af fólki annars staðar sem vonast eftir slíkri uppbyggingu í sínu héraði.

Fyrir kynningarfundinn hjá AtVest fundaði Valgerður Sverrisdóttir með Sigurði Atlasyni og Jóni Jónssyni forsvarsmönnum Strandagaldurs, þar sem uppbygging Þjóðtrúarstofu var rædd og farið yfir stöðu mála í öðrum verkefnum Strandagaldurs og kynntar framtíðarhugmyndir stofnunarinnar varðandi atvinnusköpun og eflingu byggðar.

Ljósm. Jón Jónsson