Undanfarna daga hefur verið mikill gestagangur á Galdrasýningu á Ströndum og stórir og smáir hópar litið við. Um liðna helgi komu tveir stærri hópar auk þess sem mikill fjöldi útlendinga á eigin vegum hefur komið á Strandir til að berja galdraverkefnið augum. Meðfylgjandi myndir eru frá heimsókn Heilbrigðisstofnunarinnar á Hvammstanga sem heimsóttu kollega sína á Hólmavík um helgina. Sameinaður hópur stofnananna beggja heimsóttu síðan báðar galdrasýningarnar, Galdrasafnið á Hólmavík og Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði.
Á næstu vikum hafa nokkrir skólahópar boðað komu sína, en frá áramótum hafa um 500 manns heimsótt Galdrasýninguna á Hólmavík, en til þessa hefur ferðamannatími ekki verið talinn hefjast almennilega fyrr en 1. júní. Frá því Galdrasýningin byrjaði að hafa opið árið um kring fyrir gesti og gangandi hafa gestakomur utan hefðbundins ferðamannatíma aukist verulega og skipta orðið verulegu máli.
Á göngu á Hólmavík
Hlýtt á leiðsögn við Galdrasafnið á Hólmavík
Magnús Rafnsson spjallar við gestina um kotbýlið og verkefnið þar
Sigurður Atlason trúði gestunum fyrir hverskyns huldum leyndarmálum
Ljósmyndaöflun: Jóhann Björn Arngrímsson