22/11/2024

Vetur konungur kveður

Það er ekki mikill snjór við sunnanverðan Steingrímsfjörð síðasta vetrardag eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Myndin er tekin á Kirkjubóli í dag og það er Sigfús Snævar sem hugar að fuglahræðunni Ófeigi sem lét undan rokinu og lagðist í dvala snemma í vetur. Reikna má með að Ófeigur rísi upp fljótlega og hefjist handa við að hræða varginn úr æðarvarpinu eins og hann er ráðinn til. Öðru máli gegnir með snjóinn um norðanverðar Strandir þar sem hann er töluverður samkvæmt fréttum og reyndar er þónokkuð hvítt strax hinu megin við Steingrímsfjörðinn.

Sigfús Snævar hugar að Ófeigi – Ljósm. Jón Jónsson