22/11/2024

Ný kjörbúð á Borðeyri

Í dag kl. 15:00 opnaði ný kjörbúð á Borðeyri. Hlutafélagið Lækjargarður ehf í eigu Sigrúnar Waage og Heiðars Þórs Gunnarssonar hefur keypt allar húseignirnar sem Kaupfélag V-Hún. á Hvammstanga átti á staðnum. Til að byrja með hyggjast þau reka kjörbúðina ásamt verslun með nauðsynlegar bændavörur.

Lækjargarður ehf mun einnig hýsa skrifstofu Ráðanautaþjónustu Húnaþings og Stranda og í skoðun er að Sparisjóður Húnaþings og Stranda flytji aðstöðu og afgreiðslu sína þangað. Sigrún og Heiðar segjast vera með eitt og annað á prjónunum sem framtíðin mun leiða í ljós, t.d. er hugmynd að opna tjaldstæði í vor undir kaupfélagsbrekkunni og hafa hreinlætisaðstöðu í verslunarhúsnæðinu.

Fyrsti viðskiptavinurinn, Eyjólfur Vilhelmsson

Kjörbúðin verður í vetur opin alla virka daga frá kl. 10-12 og 13-18, sem verður svo endurskoðað í vor með auknum umsvifum. Að sögn Sigrúnar og Heiðars verður vöruúrvalið í samræmi við hefðbundna kjörbúð og telja þau sig geta verið samkeppnisfær með verðlag sé miðað við dreifbýlisverslun. Almennar vörur koma einu sinni í viku, en nýtt brauð kemur tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum. Sömu daga kemur mjólkin. Sigrún og Heiðar keyptu gamla Kaupfélagsstjórahúsið árið 2002 og líkar vel að búa á Borðeyri.

Kaffihorn í búðinni

Heiðar og Sigrún – ljósm. Sveinn Karlsson