Þann 9. febrúar síðastliðinn var mikill grunnstingull kominn í flestar ár og læki í Steingrímsfirði og þær orðnar mikið uppbólgnar eins og gjarnan er sagt. Svo kom stutt en nokkuð snarpt hret og fennti í allt saman svo enn bætti á krapið sem fraus nokkuð saman þó ekki kæmi þykkur ís. Eins var snjólítið á láglendi þó talsverðir skaflar kæmu í brúnir. Svo kom hláka og árnar ygldu sig með misjöfnum látum eins og gengur. Tjón varð á Stað í Steingrímsfirði er brú sem þau Staðarhjón voru búin að koma á Þverána fyrir nokkrum árum tók af. Þveráin er straumhörð og ill yfirferðar bæði vor og haust og var oft skeinuhætt fyrir fé og brúin því mikil samgöngubót.
Goðdalsáin var laus við krap, enda talsverður jarðhiti í dalnum.
Brúin á Sunnudalsánni og sumarhöll Ölla rafyrkja og Sunnu í baksýn.
Sunnudalsáin er ansi köld svo sem sjá má.
Seláin er átakamikil ef hún vill svo við hafa, Bólstaður í baksýn.
Horft frá Trékyllisá niður Selá í átt að brúnni.
Hrannirnar voru víða 2 til 3 metrar á hæð – ljósm. Guðbrandur Sverrisson.